Jón Viggó Gunnarsson

Ávarp framkvæmdastjóra

jon

Í síbreytilegum heimi eru áframhaldandi breytingar eitt af því fáa sem við getum með nokkurri vissu gert ráð fyrir. Þetta á sérstaklega við þegar úrgangsmeðhöndlun er annars vegar, enda heimurinn allur á fleygiferð í átt að hringrásarhagkerfi og burt frá hinu línulega hagkerfi. Ábyrg meðhöndlun úrgangs er hryggjarstykki í þessari umbreytingu, sem boðar í senn aukna sjálfbærni, minni sóun og samdrátt í losun gróðurhúsalofttegunda.

SORPA er í fararbroddi þessarar innleiðingar á Íslandi. Á fyrsta degi ársins tók gildi uppfærð gjaldskrá sem var liður í mikilvægri fjárhagslegri endurreisn byggðasamlagsins. Ábyrgur rekstur og styrk fjármálastjórn er forsenda þess að SORPA geti unnið að þeim verkefnum sem henni eru falin á sínu sviði og því fagnaðarefni að rekstur SORPU sé kominn á réttan kjöl eftir það öldurót sem félagið var í á fyrstu mánuðum síðasta árs. Margt hefur gerst í rekstri byggðasamlagsins og innan málaflokksins í heild og mun ég tæpa á því helsta.

Góði hirðirinn í örum vexti

SORPA varð þrítug þann 26. apríl. Til að fagna þeim áfanga var verslun Góða hirðisins við Hverfisgötu opnuð að nýju eftir nokkurra mánaða framkvæmdir. Góði hirðirinn leikur burðarrullu í endurnotahagkerfinu á Íslandi þar sem notuðum vörum er fundið framhaldslíf hjá nýjum eigendum.

Tímabundin opnun verslunarinnar um jól sýndi að aukið framboð vöru stuðlar að aukningu í endurnotkun. Þessi niðurstaða leiddi stjórnendur SORPU af stað í það ferðalag að finna Góða hirðinum nýtt og stærra húsnæði því húsnæði verslunarinnar í Fellsmúla hefur um nokkurt skeið staðið frekari vexti starfseminnar fyrir þrifum.

Betri flokkun og minni urðun með glærum pokum

SORPA sat ekki auðum höndum á afmælinu heldur hóf samtal við samfélagið um mikilvægi þess að sá úrgangur sem skilað er til endurvinnslustöðva SORPU sé í gagnsæjum umbúðum. Þetta er gert til að tryggja rétta flokkun og auðvelda starfsmönnum endurvinnslustöðvanna að leiðbeina viðskiptavinum SORPU í þeim milljón heimsóknum sem eru á endurvinnslustöðvarnar á ári hverju.

Glæri pokinn gefur góða raun og benda tölur til þess að hlutfall óflokkaðs úrgangs sem skilað er á endurvinnslustöðvar SORPU hafi lækkað umtalsvert.

Áskoranir GAJU

GAJA er eitt umfangsmesta og metnaðarfyllsta loftslagsverkefni sem ráðist hefur verið í á höfuðborgarsvæðinu síðan heitt vatn var lagt í hús. Í GAJU er lífrænn úrgangur meðhöndlaður í stýrðu iðnaðarferli með það að markmiði að koma í veg fyrir losun á metangasi – sem er að lágmarki 25 sinnum skaðlegri gróðurhúsalofttegund en koltvísýringur – út í andrúmsloftið við urðun á lífrænum úrgangi. GAJA hefur frá fyrsta degi unnið þrotlaust að þessu markmiði en um mitt ár greindist mygla í hluta hússins sem gerði það að verkum að aðeins gassöfnunarhluti GAJU var virkur stóran hluta úr ári.

Árið 2021 var fyrsta heila árið þar sem ný flokkunarlína í móttöku- og flokkunarstöð SORPU var í rekstri. Línunni er ætlað að skilja lífrænan úrgang frá blönduðum úrgangi svo hægt sé að nýta hann sem hráefni í metangas og moltu í GAJU, gas- og jarðgerðarstöð SORPU. Forvinnslulínan nær umtalsverðum árangri í að vinna lífrænan úrgang frá blönduðum úrgangi en því miður dugir hún ekki til því greiningar í GAJU leiddu í ljós að hlutfall óhreininda í moltunni – fyrst og fremst plast og gler – er of mikið.

Til að tryggja að hægt verði að nýta þá moltu sem GAJA mun framleiða er mikilvægt að það hráefni sem til hennar berst – matarleifar frá höfuðborgarsvæðinu – séu eins lausar við óhreinindi og hægt er. Þess vegna var það mikið fagnaðarefni fyrir SORPU þegar Samtök sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu (SSH) og sveitarfélögin sjálf tóku þá ákvörðun að samræma flokkun við heimili á höfuðborgarsvæðinu öllu og hefja sérsöfnun á matarleifum við öll heimili í takt við lög sem taka gildi þann 1. janúar 2023. SSH, sveitarfélögin á höfuðborgarsvæðinu og SORPA hafa í sameiningu unnið að útfærslu á nýju flokkunarkerfi sem stefnt er á að verði innleitt á vormánuðum 2023 og verði í innleiðingarferli fram á haust það sama ár.

Sjálfbærni og hringrás á uppleið

SORPA horfir bjartsýnum augum til framtíðar, bæði í rekstri byggðasamlagsins en ekki síður á sviði sjálfbærni og hringrásarinnar. Samfélagið allt þarf að taka þátt í að umbreytast í átt að aukinni sjálfbærni og því er mikilvægt að öll þau sem að þessum málefnum koma stefni í sömu átt.

Umbreyting þessi tekur hins vegar tíma og því er mikilvægt að stilla væntingar eftir því. Eins og ágætur maður komst eitt sinn að orði: „Okkur hætti til að ofmeta þær breytingar sem verða á tveimur árum en vanmeta þær breytingar sem verða á tíu árum.“ Þegar við horfum til baka um tíu ár sjáum við glöggt að viðhorf samfélagsins gagnvart sjálfbærni hefur tekið miklum stakkaskiptum og að fólk gerir sífellt meiri kröfur til hins opinbera, atvinnulífsis og sín sjálfs um að huga betur að umhverfisvernd. Þær kröfur eru af hinu góða og tákn um að við erum tilbúin að leggja okkar af mörkum til að gera heiminn okkar betri og vinna saman að því að stemma stigu við loftslagsvánni.